Golfklúbburinn Hamar

img_6023.jpg
HomeFréttirAldrei of seint að byrja

Aldrei of seint að byrja

Golf er þess eðlis að það er einfaldlega aldrei of seint að byrja. Auðvitað hjálpar það að byrja snemma en það er ekki ávísun á það að ná árangri. Þótt þið séuð orðin sextug er ekki of seint að byrja. Hver og einn hefur auðvitað sínar eigin forsendur fyrir því að vilja spila golf og það er mismunandi hjá hverjum og einum hve langt hann vill ná og það á að bera virðingu fyrir því. Sumir vilja bara spila golf með vinum sínum og er alveg sama á hvaða skori þeir eru. Svo eru aðrir sem vilja alltaf vera að keppa og þrífast á spennunni sem fæst úr keppninni. Þar sem þetta er einstaklingsíþrótt þá er auðvelt að ráða sinni leið til þess að njóta íþróttarinnar.

Ef við tökum nærtækt dæmi þá ólst ég upp á Blönduósi...höfuðborg norðurlands J og tók fyrst upp golfkylfu um 11-12 ára aldur. Ég fékk ekki kennslu í líkingu við það sem verið er að bjóða upp á hér á Dalvík. Það var ekkert golf á veturna og á sumrin kom golfkennari aðeins aðra hverja helgi til þess að bjóða upp á kennslu fyrir félaga í klúbbnum. Ég var 19 ára þegar ég vildi virkilega láta reyna á það hve góður ég gæti orðið í golfi og fór því að eyða nokkrum klukkustundum á dag upp á golfvelli við æfingar og fór að sækja GSÍ mótaröðina. Nokkrum árum síðar var ég valin í æfingahóp landsliðs og það tók svo um tvö ár að fá verkefni með landsliðinu og í kjölfarið komu fjögur skemmtileg ár þar sem ég var valinn í allar liðakeppnir sem landsliðið fór í og ég fékk 2-3 einstaklingsmót á ári erlendis. Þetta var einn skemmtilegasti tími sem ég hef upplifað. Ég fékk tækifæri til þess að leika á mörgum frábærum golfvöllum víðsvegar um heiminn. Eftir það gerðist ég atvinnumaður og afsalaði þar með rétti mínum til þess að leika með landsliðinu. Ég bjó erlendis við æfingar og keppni í tvö ár sem atvinnumaður og það eru alger forréttindi að hafa fengið að prófa þetta allt. Þetta upplifði ég allt vegna ánægju minnar af leiknum og dugnaði....ég var og er enn einn af þeim sem njóta þess að keppa og þrífst við þær aðstæður.

Aðstæður hér á Dalvík til þess að æfa golf eru með þeim betri á landinu og allar forsendur til þess að ná langt vilji maður það.

Heiðar Davíð Bragason, Yfirþjálfari GHD.

Share

Símanúmer í golfskála
466-1204

Joomla templates by Joomlashine